Ísey skyrbar opnar í dag nýjan stað á N1 stöðinni við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, þar sem Subway var áður til húsa. Þetta er níundi Ísey skyrbarinn á höfuðborgarsvæðinu og sá fimmti á sölustöðvum N1.

Stefnt er að því að fjölga stöðunum enn frekar og opna staði utan höfuðborgarsvæðisins að því er fram kemur í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar er sagt frá því að vörumerkið sé í eigu Mjólkursamsölunnar, Kaupfélags Skagfirðinga og ÍSAM en reksturinn í höndum sérleyfishafa Íseyskyrbars, Skyrboozt ehf., sem er meðal annars er í eigu Kristins Sigurjónssonar.

„Viðskiptavinir okkar í Hafnarfirði hafa sýnt Ísey skyrbar mikinn áhuga, fyrirspurnir eru fjölmargar um hvort ekki verði hægt að kaupa þessar vörur á Reykjavíkurvegi og það er því gleðiefni að geta boðið bæði Hafnfirðingum og þeim sem leið eiga um Reykjavíkurveginn upp á þessar vinsælu vörur,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1 í tilkynningu.

Bæði verður hægt að sitja inni á staðnum og panta í gegnum lúgu á staðnum í Hafnarfirði. Opnunartilboð verður á staðnum til 1. apríl.