Kvikmyndahátíðin Cannes hefst í dag og stendur yfir til 27. maí og verða meðal annars þrír upprennandi íslenskir framleiðendur kynntir til leiks. Þetta er einnig þriðja árið í röð sem íslenskt kvikmyndaverk er hluti af opinberu vali hátíðarinnar.

Íslenska stuttmyndin Fár verður sýnd í aðaldagskrá hátíðarinnar en hún er meðal 11 mynda sem keppa um gullpálmann í stuttmyndaflokki. Myndin er Gunni Martinsdóttur Schlüter og verða tilkynnt um sigurvegara við lokaathöfn hátíðarinnar. Hátt í 4288 stuttmyndir sóttust eftir því að verða sýndar á hátíðinni í ár.

Fár fjallar um einstakling sem tekst á við aðstæður sem reyna á siðferði mannskepnunnar í heimi sem er aftengdur við náttúruna. Gunnur leikstýrir, skrifar handrit og fer með aðalhlutverk myndarinnar. Aðrir leikarar eru Jörundur Ragnarsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Þóra Dögg Mósesdóttir, Bylgja Ægisdóttir og Atli Óskar Fjalarsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þrír íslenskir framleiðendur munu einnig taka þátt í vinnustofum sem fara fram samhliða hátíðinni. Íslensku framleiðendurnir eru Þóra Dögg Mósesdóttir, sem nýverið stofnaði framleiðslufyrirtækið Northern Wave, Bylgja Ægisdóttir, frá danska framleiðslufyrirtækinu Scanbox og Atli Óskar Fjalarsson, stofnandi framleiðslufyrirtækisins Empath.

Þrjár íslenskar stuttmyndir verða líka sýndar í Short Film Corner hluta Cannes-hátíðarinnar. Þær eru Chef de Partie eftir Ágúst Þór Hafsteinsson, Samræmi eftir Kristínu Eysteinsdóttur og Óvissuferð eftir Kolfinnu Nikulásdóttur.

Kvikmyndamiðstöð Íslands mun að auki hafa aðsetur í Scandinavian House í Cannes á meðan hátíðinni stendur, þar sem norrænar kvikmyndastofnanir og miðstöðvar kynna kvikmyndir frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.