Veitingastaðurinn Jómfrúin hefur hafið samstarf við Borgarleikhúsið og er það í fyrsta sinn sem Jómfrúin býður upp á veitingar utan síns veitingastaðar. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu. Jómfrúin býður því nú upp á úrval af smörrebrauði í leikhúsinu sem hægt er að njóta bæði fyrir og eftir leiksýningar.

„Gestir Borgarleikhússins hafa lengi vel óskað eftir því að geta keypt léttar veitingar fyrir sýningar og höfum við prófað ýmsar útfærslur af slíkri veitingasölu. En þegar við höfðum samband við Jakob hjá Jómfrúnni síðastliðið vor og fundum fyrir gagnkvæmum áhuga á samstarfinu, þá vissum við strax að hið sívinsæla smörrebrauð Jómfrúarinnar myndi sóma sér einstaklega vel með leiksýningunum okkar. Það er okkur sönn ánægja að segja frá þessu samstarfi sem er nú þegar hafið og fer vel af stað,“ er haft eftir Kristínu Ögmundsdóttur, framkvæmdastjóra Borgarleikhússins.

„Jómfrúnni finnst afskaplega gaman að vera komin í samstarf með jafn rótgrónum aðila og raun ber vitni. Tryggur hópur viðskiptavina einkennir bæði fyrirtækin og eflaust eru mörg þeirra traustir viðskiptavinir bæði Borgarleikhússins og Jómfrúarinnar. Þetta eitt og sér skapar sérlega fallegan ramma utan um gjöfult samstarf,“ segir Jakob Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar.