Nýr Kia Niro var valinn besti bíllinn í flokki minni sportjeppa hjá bílatímaritinu Auto Express. Niro hafði betur gegn Renault Captur og Toyota Yaris Cross sem höfnuðu í næstu sætum á eftir.

Kia Niro fær góða dóma hjá Auto Express sem m.a. hrósar aksturseiginleikum bílsins, hönnun sem og innanrými, tæknibúnaði og þægindum.

Um er að ræða þriðju kynslóð Kia Niro sem hefur verið einn vinsælasti bílinn frá Kia á Íslandi og um allan heim undanfarin ár.

Kia Niro er í boði í þremur útfærslum; sem hreinn 100% rafbíll með allt að 460 km drægni á rafmanginu og auk þess í tengiltvinn- (Plug-in Hybrid) og tvinnútfræslu (Hybrid). Við efnisval var sjálfbærni höfð að leiðarljósi og nýr Niro verður búinn öllum nýjustu aksturs- og öryggiskerfum Kia.