Patrik Snær Atlason, sem kemur fram undir listamannsnafninu Patri!k, hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn hérlendis eftir að hafa gefið út smellinn Prettyboitjokko í mars á þessu ári. Í nægu hefur verið að snúast hjá Patrik á árinu. Rúmum mánuði eftir að hafa gefið út sitt fyrsta lag gaf hann út smáskífu. Auk þess hefur mikið verið að gera hjá tónlistarmanninum við að koma fram á hinum ýmsu viðburðum. Nú er hann að leggja lokahönd á jólalag sem gefið verður út á föstudaginn.

„Mamma var alltaf að hvetja mig til þess að gefa út jólalag. Ég er að fara gefa út plötu á næsta ári og er að vinna með allskonar pródúserum við lögin sem verða á plötunni. Einn daginn var ég að vinna með einum þeirra, Gunnari Kristni Jónssyni, og nefndi að það gæti verið gaman að gefa út jólalag. Honum þótti þetta spennandi hugmynd og sendi mér ekki löngu síðar tillögu sem mér leist mjög vel á. Ég kíkti því upp í stúdíó til hans og við kláruðum mestu vinnuna í kringum lagið á frekar skömmum tíma. Þetta ferli var því hálf tilviljanakennt og sýnir vel hve heppilegt það er að vinna í kringum mikið af hæfileikaríku fólki.“

Aðdáendur Patriks hafa eflaust tekið eftir því að brot úr nýja jólalaginu hljómar undir auglýsingum á jólaútgáfu af orkudrykknum vinsæla Nocco. „Hún vill fá pretty, pretty, prettyboi um jólin. Hún vill hann lykti vel, syngi vel, allt sem að hún óskar sér,“ eins og segir í texta hljóðbrotsins úr laginu.

„Þau hjá heildsölunni sem selur drykkinn setja alltaf í sölu sérstakt jóla Nocco í kringum jólin sem heitir Sveinki Jr. Jólalagið var ekki samið sérstaklega fyrir þetta tilefni heldur var þetta hugmynd sem kom upp í kjölfar ákvörðunarinnar um að gefa út jólalag. Lagið passar mjög vel við Sveinka Jr drykkinn svo það var tilvalið að tengja þetta tvennt saman,“ segir Patrik.

„Hvað er að þessum náunga?“

Eins og Patrik nefnir að ofan stefnir hann á að gefa út plötu á næsta ári. Smáskífan PBT sem hann sendi frá sér í fyrra inniheldur fimm lög en platan sem nú er í smíðum mun að hans sögn innihalda fleiri lög. Hann kveðst reikna með að eitt til tvö lög af plötunni verði gefin út áður en platan verður svo gefin út í heild sinni.

„Mín leið er svolítið að taka einn dag fyrir í einu og sjá hvert það leiðir mig. Það var til dæmis ekkert alltaf planið að gefa út plötuna sem ég gaf út í fyrra. Snemma á síðasta ári var Prettyboitjokko lagið tilbúið og ég ákvað að gefa það út eitt og sér þar sem ég gat nýtt pælingu á bakvið lagið til að koma mér á framfæri. Í viðtölum gat ég því bullað um hvað það er að vera prettyboitjokko,“ segir Patrik sem leiðist hve klisjukennd viðtöl við tónlistarfólk sem er að koma fram á sjónarsviðið geta verið.

„Sömu klisjurnar koma alltaf fram í viðtölunum. „Ég byrjaði bara í bílskúrnum heima“ og allt þetta. Svona grípur ekki eyrun á fólki og því fór ég að hugsa hvernig ég gæti vakið athygli á mér. Ég fór því að ræða um í viðtölum að til að vera prettyboitjokko þyrftu menn að lykta vel og alls konar dæmi sem ég bjó bara til. Margir sem hlustuðu á þetta hugsuðu væntanlega: „Hvað er að þessum náunga?“, en þannig náði ég samt athygli þeirra.“

Fljótlega fóru bókanir að streyma inn og fannst Patrik þá ekki koma til greina að eiga bara eitt lag. „Svo varð lagið auðvitað mjög vinsælt og þá fannst mér ég þurfa að gefa út meira efni. Ég fékk því mikið af hæfileikaríku fólki með mér í lið og dreif í því í að semja og taka upp ný lög sem voru svo gefin út á smáskífu. Smáskífan innihélt Prettyboitjokko og fjögur lög til viðbótar. Prettyboitjokko lagið kom út í byrjun mars og platan kom svo út í apríl. Þetta gerist því allt mjög hratt og á fremur óhefðbundinn máta. Vanalega er talið varasamt að gefa út nýtt lag á meðan þú ert tiltölulega ný búinn að gefa út lag sem er enn vinsælt og í mikilli spilun,“ segir hann kíminn.

Patrik ver jólunum að þessu sinni í Frakklandi á skíðum ásamt stórfjölskyldunni
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Jólagjafahandbókin fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér og nálgast blaðið hér.