Scott Free Productions, framleiðslufyrirtæki Ridley Scott, hefur keypt réttinn að Úti, nýjustu skáldsögu Ragnars Jónassonar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að stefnt sé að því að gera kvikmynd eftir Úti, sem Ridley Scott yrði framleiðandi að, ásamt teymi frá Scott Free og True North á Íslandi, og eru viðræður þegar sagðar hafnar við danska leikstjórann Henrik Hansen um að leikstýra verkinu.

„Það er stórkostlegur heiður að fá tækifæri til að vinna með Ridley Scott, einum fremsta kvikmyndagerðarmanns okkar tíma. Ég hlakka mikið til þess ævintýris að koma sögunni á hvíta tjaldið í samstarfi við Scott Free og True North,“ er haft eftir Ragnari.

Scott hefur leikstýrt myndum á borð við Alien, Blade Runner, Gladiator og Thelma & Louise og kvikmyndir hans hafa meðal annars unnið Óskarsverðlaun, BAFTA- og Golden Globe-verðlaun.

„Velgengi verka Ragnars um allan heim er mikil og verðskulduð. Það að maður á borð við Ridley Scott ætli að kvikmynda nýjustu bók hans  sýnir glöggt hver staða hans er á hinu alþjóðlega sviði glæpa- og spennusagna þar sem samkeppnin er gríðarleg,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti og Veröld sem gefur út bækur Ragnars á Íslandi.

Úti kom út á íslensku fyrir síðustu jól og er væntanleg í Bretlandi og Bandaríkjunum í vor. Í framhaldinu fylgir svo útgáfa í öðrum löndum. Alls hafa yfir þrjár milljónir eintaka af bókum Ragnars verið seldar í 36 löndum.