Framkvæmdir við gerð sjóbaða á Húsavíkurhöfða hófust fyrir rúmu hálfu ári, en gert er ráð fyrir að sjóböðin opni í lok júní ef allt gengur eftir. Stefnt er að því að hægt verði að taka á móti hundrað þúsund gestum á ári og er áætlaður byggingarkostnaður á sjötta hundrað milljónir króna. Sjóböðin hafa verið í undirbúningi frá árinu 2011. Verið er að byggja 600 fermetra hús með veitingastað og búningsklefa auk 500 fermetra útisvæðis þar sem verða baðlaugar með 40 gráðu heitum sjó.

Verðmæt jarðböð við Mývatn

Jarðböðin við Mývatn voru metin á 4,5 milljarða um síðustu áramót. Þetta má lesa úr ársreikningi KEA, en félagið er meirihlutaeigandi félagsins Tækifæri, en það er stærsti hluthafi í Jarðböðunum. Þau voru metin á 900 milljónir í lok árs 2014 og hafa því fimmfaldast í verði á þremur árum. Um 220.000 manns böðuðu sig í Jarðböðunum í fyrra, fleiri en nokkru sinni.

Í miðju gullna hringsins

Laugarvatn Fontana er staðsett um það bil í miðju gullna hringsins á Suðvesturlandinu. Laugarvatn Fontana var opnað í júlí árið 2011. Á svæðinu er mikið lagt upp úr virðingu við náttúruna, hefðir og sögu staðarins. Auk þess er samskiptum náttúru, vatns og gufu gert hátt undir höfði. Náttúruböðin sem opnuðu 2011 gefa kost á að upplifa hina einstöku gufu beint yfir gufuhvernum fræga sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða að minnsta kosti síðan 1929. Auk þess er unnt að baða sig í heilsubaðvatni í þrískiptri baðlaug, dvelja í heitu sánubaði, ganga í volgum sandinum, dýfa sér í Laugarvatnið sjálft frá nýbyggðri bryggju eða slaka á í fallegum garðinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .