Uppboðshúsið Sotheby‘s mun bjóða upp eintak af frumútgáfu stjórnarskrár Bandaríkjanna í næsta mánuði. Eintakið er metið á 20-30 milljónir dala, eða sem nemur 2,9-4,4 milljörðum króna, sem jafnar fyrra met yfir hæsta mat sem lagt hefur verið á sögulegt skjal. Forbes greinir frá.

Einungis þrettán af upphaflegu 500 eintökunum eru enn til, en þar af eru tvö í eigu einkaaðila. Annað þeirra var selt á uppboði fyrir rúmu ári síðan á 43,2 milljónir dala eða um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins. Kaupandinn var Ken Griffin, stofnandi og forstjóri vogunarsjóðsins Citadel.

Kaupverðið var nærri þrefalt hærra en áætlað verð Sotheby‘s og sló met yfir uppboð á nokkurri bók, handriti eða prentuðum texta, samkvæmt uppboðshúsinu.

Eintakið sem verður boðið upp í næsta mánuði var síðast selt á uppboði árið 1894. Það var keypt sem gjöf fyrir bókasafnarann Adrian Van Sinderen.