Streymisveitan Viaplay hefur tryggt sér sýningarrétt á EFL Championship-deildinni, næstefstu deild Englands í knattspyrnu, og Carabao Cup, Enska deildabikarnum, á öllum Norðurlöndunum. Stöð 2 sport hefur haft sýningarétt á keppnunum tveimur síðustu árin.

Viaplay verður eina streymisveitan með sýningarréttinn á Sky Bet Championship-deildinni og Carabao Cup á öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Hollandi frá 2022. Á hverju tímabili verða meira en 180 leikir í beinni útsendingu frá 1. deild Englands, þar á meðal undanúrslit og úrslit umspilsins um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Þá verða allar umferðir Carabao Cup sýndar í beinu streymi á Viaplay. Streymisveitan mun einnig sýna ensku úrvalsdeildina í níu löndum frá og með ágúst 2022.

Hjörvar Hafliðason íþróttastjóri Viaplay á Íslandi:

„Fótboltaunnendur vita að það jafnast fátt á við enska knattspyrnu þar sem koma saman miklir hæfileikar, gríðarleg ástríða, magnaðar hefðir og óútreiknanleg úrslit. Við erum nú þegar að sýna frá fjölbreyttu íþróttaefni, en erum hæstánægð með þessa viðbót, að fá bæði enska deildabikarinn og ensku Championship-deildina inn á heimili íþróttanna hér á Viaplay.“