Hátæknifyrirtækið atNorth, sem rekur gagnaver og ofurtölvuþjónustu frá Íslandi, hefur ráðið Bylgju Pálsdóttur í starf markaðsstjóra. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu, þar sem segir að atNorth sé í örum vexti og ráðningin sé liður í auknum umsvifum fyrirtækisins, sem opni nýtt hátækni-gagnaver í Svíþjóð fyrir árslok.

Bylgja er með B.S gráðu í markaðsfræði frá University of Portsmouth í Englandi og hefur víðtæka reynslu af sölu- og markaðsmálum í ferðaþjónustu og tæknigeiranum. Hún kemur til atNorth frá Skaganum 3X, sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á tækjum og búnaði fyrir matvælaframleiðslu.

„Ég hlakka mikil til að taka þátt í spennandi verkefnum sem eru framundan og frekari vexti atNorth. Félagið býður lausnir og þjónustu í hæsta gæðaflokki, starfar náið með sínum viðskiptavinum og ætlar sér aukna hlutdeild á alþjóðamarkaði. Ég vona að reynsla mín í hátækniiðnaðinum muni nýtast vel á nýjum vettvangi og fyrirtækið haldi áfram að skapa störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið," er haft eftir Bylgju í fréttatilkynningu.

„Það er afar ánægjulegt að fá jafn reynda manneskju til liðs við okkur og Bylgju sem hefur reynslu af alþjóðamarkaðsetningu hátæknilausna með áherslu á stórfyrirtæki og ströng innkaupaferli," er haft eftir Gísla Kr. Katrínarsyni, framkvæmdastjóri Sölu- og Markaðsviðs atNorth. „Framundan hjá okkur er áframhaldandi markaðssókn á alþjóðavísu sem Bylgja mun leiða, markaðsátök til kynningar á gagnavershýsingu og ofurtölvuþjónustu atNorth sem veitt verður bæði frá Svíþjóð og frá Íslandi."

Um atNorth:

atNorth er hátæknifyrirtæki á sviði gagnavera, ofurtölva, blockchain og gagnaversþjónustu sem hönnuð er til að hámarka reiknigetu viðskiptavina og rekstraröryggi. atNorth hefur unnið að byggingu gangavers í Stokkhólmi í Svíþjóð sem hefur starfsemi fyrir lok árs en fyrir rekur fyrirtækið tvö gagnaver á Íslandi, í Hafnarfirði og Fitjum í Reykjanesbæ. Meðal viðskiptavina atNorth eru alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir sem starfa í fjölmörgum greinum, svo sem við rannsóknir, í heilbrigðisgeiranum, í genarannsóknum, við framleiðslu, í fjármálaiðnaði og veðurfræði.