Dr. Egill Júlíusson hefur gengið til liðs við Arctic Green Energy sem framkvæmdastjóri tæknisviðs (e. Chief Technology Officer). Egill mun hafa umsjón með tæknilegum lausnum félagsins á sviði jarðhita og annarra orkugjafa til viðskiptavina þess um allan heim. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Egill mun jafnframt stýra þekkingasetri Arctic Green Energy á Íslandi. Innan þess eru nokkrir af helstu sérfræðingum alþjóðajarðhitageirans, m.a.: Dr. Guðni A Jóhannesson fyrrum Orkumálastjóri, Dr. Ólafur Flóvenz, fyrrum forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), Dr. Páll Valdimarsson, prófessor og fyrirlesari á sviði jarðhita og hitaveitukerfa við stofnanir víða um heim og Grímur Björnsson, jarðeðlis- og forðafræðingur með yfir 35 ára reynslu í greiningum á jarðvarmaauðlindum.

Dr. Egill Júlíusson kemur til Arctic Green Energy frá Landsvirkjun þar sem hann gegndi stöðu nýsköpunarstjóra og yfirforðafræðings. Þar hóf hann störf árið 2012 og hefur sinnt ýmsum verkefnum, m.a. líkanagerð, gagnastýringu, gufuöflun, uppbyggingu auðlindagarða og þróun nýrra aðferða við nýtingu jarðvarmaauðlinda.

Egill er með BSc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslanda, MSc. og PhD. í jarðvarmaauðlindaverkfræði frá Stanford háskóla. Hann er einnig aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík.