Guðmundur Hallgrímsson og Rútur Örn Birgisson hafa gengið til liðs við eigendahóp Lindar fasteignasölu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Guðmundur Hallgrímsson hóf störf hjá Lind nú um miðjan september en hann mun samhliða sölu fasteigna koma að almennum rekstri fasteignasölunnar. Guðmundur er með löggildingu sem fasteigna- og skipasali frá Háskóla Íslands.

Undanfarin ár hefur Guðmundur unnið sem fasteignasali hjá Remax og þar áður í eigin rekstri. Hann er búsettur á Seltjarnarnesi, hann er giftur Völu Valþórsdóttur og á fjögur börn.

Þá hefur Rútur Örn Birgisson lögmaður einnig gengið inn í eigendahóp Lindar. Rútur gekk til liðs við fasteignasöluna í janúar 2021 en hann leiðir samningadeild Lindar og mun koma að almennum rekstri félagsins.

Rútur öðlaðist réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2013 og er auk þess með réttindi til þess að starfa sem löggiltur fasteignasali. Rútur er búsettur í Reykjavík, hann er giftur Kristínu Jónsdóttur og á tvö börn.

Skrifstofa Lindar fasteignasölu er staðsett í Bæjarlind 4 þar sem starfa 42 einstaklingar, 35 við sölu fasteigna og 7 í skjalavinnslu og frágangsdeild.