Expectus hefur ráðið til sín Helgu Dögg Björgvinsdóttur í stöðu rekstrarstjóra og hefur hún þegar tekið til starfa hjá fyrirtækinu.

Helga Dögg starfaði síðast sem viðskiptastjóri hjá Crayon, alþjóðlegu fyrirtæki í upplýsingatækni með norskar rætur, en þar áður gegndi hún meðal annars starfi markaðs- og fjármálastjóra hjá Microsoft á Íslandi í sex ár.

Hún er með BA í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá sama skóla.

Helga Dögg Björgvinsdóttir:

„Ég er mjög spennt yfir að vera komin til Expectus í þetta lifandi og skemmtilega umhverfi, þar sem saman fara ráðgjöf og upplýsingatækni. Það eru spennandi tímar fram undan og við ætlum okkur að vaxa, sérstaklega í hugbúnaðarhlutanum exMon þar sem stefnan er sett út fyrir landsteinana. Það gerir mig bæði ánægða og stolta að fá að vera hluti af þessu öfluga teymi og taka þátt í að leiða áframhaldandi vöxt inn í framtíðina.“

Sindri Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Expectus:

„Við erum einstaklega heppin að fá Helgu Dögg til að starfa með okkur, hún býr yfir víðtækri þekkingu og mikilli reynslu af því að vinna í upplýsingatæknigeiranum.“

Expectus sérhæfir sig í ráðgjöf til fyrirtækja varðandi nýtingu upplýsingatækni við ákvarðanatöku og áætlanagerð til að ná mælanlegum árangri í rekstrinum.