Lýður Skúli Erlendsson hefur verið ráðinn vísinda- og nýsköpunarstjóri Auðnu Tæknitorgs. Greint er frá ráðningunni í fréttatilkynningu.

Lýður hefur starfað við líftækni og á undanförnum árum sem teymisstjóri á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís og sinnti þar opinberum stuðningi við nýsköpun í gegnum Tækniþróunarsjóð og Skattfrádrætti rannsókna- og þróunarverkefna.

Lýður hefur reynslu af alþjóðlegu samstarfi en hann hefur tekið virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd alþjóðlegra samstarfsáætlana um sjávartengdar rannsóknir. Hann situr í stjórn Nordic Innovation sem styður við nýsköpun og aukna samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja á Norðurlöndunum.

Lýður er með doktorspróf í örverufræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

„Mér finnst nýsköpun án efa vera lykill að aukinni hagsæld í samfélaginu og vísindi er ein meginuppspretta nýrra, áhugaverðra tækifæra. Tækniyfirfærsla hagnýtra rannsókna úr akademísku umhverfi yfir í iðnaðinn er mikilvæg til að búa til verðmæti úr vísindum. Auðna tæknitorg gegnir þarna mikilvægu hlutverki í að skapa þessi tengsl milli háskóla og atvinnulífs og þar með stuðla að öflugra samfélagi,“ segir Lýður Skúli.

„Það er aldeilis frábært að fá Lýð til starfa hjá okkur. Teymi Auðnu hefur styrkst verulega undanfarið og við erum nú betur í stakk búin til að sinna fjölbreyttum og vaxandi verkefnum á sviði vísindalegrar nýsköpunar fyrir háskólana, atvinnulífið og samfélagið. Við finnum að það er hugur í vísindasamfélaginu enda eru vísindin með þátttöku atvinnulífsins nauðsynleg til þess að mæta þeim áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir,“ segir Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs.