Magnús Kr. Ingason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Festi. Þetta kemur fram í tilkynngu frá félaginu til Kauphallarinnar. Hann mun hefja störf hjá Festi hf. í janúar og taka þá jafnframt sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Magnús er viðskiptafræðingur, cand.oecon, frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi. Hann starfaði hjá KPMG 1994 til 1999 en þá réð hann sig sem forstöðumaður reikningshalds hjá Flugleiðum. Magnús var framkvæmdastjóri Fjárvakurs ehf. dótturfélags Icelandair Group hf. frá 2003 fram á mitt ár 2019.

Í tilkynningunni segir Eggert Þór Kristórfersson, forstjóri Festi:

„Það er mikill fengur fyrir Festi hf. að fá Magnús til starfa. Hann hefur umfangsmikla stjórnunarreynslu og þekkir vel til þeirra verkefna sem unnin eru á fjármálasviði Festi hf.  Ég er sannfærður um að hann muni reynast góður liðsmaður í því verkefni að takast á við þær áskoranir sem félagið stendur frammi fyrir á hverjum tíma.“