Ólafur Páll Torfason kom nýr inn í stjórn Rafmyntaráðs Íslands, sem kjörin var á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði, og Valur Þór Gunnarsson kemur inn sem aðalmaður í stað varamanns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Erna Sigurðardóttir heldur áfram sem formaður stjórnar, og Daníel Fannar Jónsson og Hanna Kristín Skaftadóttir halda einnig áfram sem aðalmenn. Þá koma Hilmar Jónsson og Mateusz Piotr Jakubek inn sem varamenn.

Ólafur Páll er stofnandi Mojoflower verkefnisins og er í tilkynningunni sagður hafa reynslu af nýsköpun og rekstri fyrirtækja ásamt því að hafa setið í stjórn fyrirtækja og félagasamtaka.

Hilmar Jónsson er menntaður rafvirki ásamt B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði. Hann færði sig nýlega frá Deloitte til sprotafyrirtækisins Pancake-Express.

Mateusz Piotr hefur meðal annars unnið hjá Jakobsson Capital, Kontakt fyritækjaráðgjöf og áskorendabankanum Indó.

Fráfarandi stjórnarmenn eru Diljá Helgadóttir og Hlynur Þór Björnsson, en sá síðarnefndi hafði setið í stjórn félagsins frá 2015.

Kjartan Ragnars hættir einnig sem varamaður í stjórn og gjaldkeri, en hann tók við af Kristjáni Inga Mikaelssyni sem framkvæmdastjóri ráðsins í febrúar á þessu ári.