Magnús Árnason, stjórnarmaður og ráðgjafi, hefur bæst við hóp svokallaðra sérstakra ráðgjafa (associated partners) hjá Góðum samskiptum.

Í tilkynningu segir að viðskiptavinir Góðra samskipta muni héðan í frá hafa aðgang að ráðgjöf Magnúsar í tilteknum verkefnum svo sem í tengslum við fjárfestingarverkefni, skráningar á markað og endurmörkun vörumerkja.

Magnús hefur áralanga reynslu sem stjórnandi, síðast sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og markaðsmála hjá Nova og áður sem alþjóðavörumerkjastjóri hjá LazyTown/Turner Broadcasting. Magnús er eftirsóttur ráðgjafi á sviði viðskiptaþróunar og vörumerkja og situr meðal annars í stjórnum Ölgerðarinnar, Nova og Indó banka.

Sérstakur ráðgjafi er algengt hlutverk hjá ráðgjafarfyrirtækjum á Norðurlöndunum en það felur í sér aðgengi að reynslumiklum stjórnendum í afmörkuð verkefni, sem jafnan eru nafntogaðir aðilar með sérhæfða þekkingu og mikla innsýn í samfélagið og/eða atvinnulífið.

Þess má geta að Þórhallur Gunnarsson, stjórnendaráðgjafi og fyrrum stjórnandi á sviði fjölmiðla, kom til liðs við Góð samskipti sem sérstakur ráðgjafi í upphafi þessa árs.