Eignarbjarg, dótturfélag Arion banka, hefur boðið allt hlutafé í Rekstrarfélagi Tíu-ellefu ehf. til sölu. Bankinn gerir ráð fyrir að selja hlutaféð í einu lagi. Söluferlið er opið öllum sem uppfylla skilyrði um þekkingu og fjárhagslegan styrk. Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum er til 18. maí. Þegar hann er runninn út munu valdir fjárfestar fá aðgang að frekari upplýsingum um félagið áður en óskað verður eftir bindandi tilboðum.

10-11 keðjan, sem rekur 23 verslanir, var hluti af smásölurisanum Högum þar til í september í fyrra. Þá ákvað Arion banki, sem hafði leyst til sín Haga, að kljúfa keðjuna út ásamt eignum og skuldum hennar. Þann 16. febrúar var framkvæmd hlutafjárhækkun í félaginu þar sem Eignarbjarg skráði sig fyrir öllum nýjum hlutum. Fyrir hana var greitt með skuldajöfnun upp á 1,3 milljarða króna. Samkvæmt skiptaefnahagsreikningi Haga námu heildarskuldir Rekstrarfélags Tíu-ellefu við uppskiptingu um tveimur milljörðum króna.