*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 18. október 2019 12:28

10% samdráttur í kortaveltu ferðamanna

Yfir fjórðungssamdráttur í kortaveltu Bandaríkjamanna, Bretar stóðu í stað en nærri fimmtungsaukning hjá Frökkum.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Ef horft er til kortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi utan þess sem fer í flugsamgöngur sést að hún dróst saman um 9,65% milli ára í septembermánuði að því er Rannsóknarsetur verslunarinnar segir frá.

Miðast það við breytilegt verðlag milli ára, en í heildina nam hún 22 milljörðum króna í mánuðinum. Mest áberandi var samdrátturinn frá ferðamönnum frá Norður Ameríku, eða ríflega fjórðung frá bæði Bandaríkjamönnum og Kanadabúum, meðan kortavelta Breta hér á landi stóð nánast í stað og Frakkar bættu við sig nærri fimmtungi.

Töluverður samdráttur var í kortaveltu flokksins ýmis ferðaþjónusta eða 15,7% borið saman við fyrra ár. Í þann flokk falla ýmsar skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa. Kortavelta flokksins nam tæpum 3 milljörðum í september og fór meirihluti hennar fram með greiðslum á netinu. Sé litið á kortaveltu flokksins á var netinu, var samdráttur einungis 1,2% og nam 2,2 milljörðum kr. á meðan kortavelta í posum dróst saman um 43% á milli ára og nam rúmum 700 milljónum króna.

Í gistiþjónustu dróst erlend kortavelta saman um 9,6% eða 568 milljónir á milli ára og nam 5,9 milljörðum kr. í september. Þá var jafnframt samdráttur í kortaveltu erlendra ferðamanna í flokki bílaleiga, 16,7% og í veitingaþjónustu var samdráttur upp á 12,5% miðað við sama mánuð í fyrra.

Kortavelta í verslun dróst saman um 4,3% samanborið við fyrra á, þar sem samdráttur í dagvöruverslun og fataverslun var þó nokkur. Í flokki dagvöruverslana dróst kortaveltan hlutfallslega saman um 6,8% á milli ára og nam rúmum milljarði króna í september. Á meðan dróst velta í fataverslunum saman um 9,4% miðað við sama tíma í fyrra.

Eins og áður segir var áberandi mest lækkun á veltu greiðslukorta frá norður Ameríku. Þannig lækkuðu bæði bandarísk og kanadísk kortavelta um 26% frá september í fyrra. Þess má geta að samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia fækkaði bandarískum ferðamönnum um 43% í september og þeim kanadísku fækkaði um 36%.

Því hækkaði kortavelta á hvern ferðamann frá norður Ameríku í mánuðinum sem leið. Kortavelta breskra ferðamanna stóð nánast í stað á milli ára, jókst um 2% á breytilegu verðlagi og nam heildarvelta þeirra 3 milljörðum kr. Kortavelta franskra ferðalanga jókst þá um 19% á milli ára og hjá þýskum ferðamönnum um 7% á sama tíma.