Gísli Gíslason rekur fyrirtækið Even, sem flytur inn rafbíla af nokkrum gerðum, þar á meðal hinn umtalaða Tesla. Hann er helsti talsmaður rafbílavæðingar á landinu. Þótt hann hafi vissulega hagsmuna að gæta í því sambandi kveðst hann fyrst og fremst hafa brennheitan áhuga á málinu út frá þjóðarhagsmunum og heilbrigðri skynsemi.

Gísli segir að undanfarin fimm ár hafi fjöldi rafbíla á Íslandi aukist um 100% á ári.  Það sé ekki nóg ef markmið hins opinbera á þessu sviði eiga að nást. Það hljóðar upp á að 10% af bílaflota landsmanna sé umhverfisvænn árið 2020.

„Núna eru 238.000 bílar á íslenskum vegum. Miðað við óbreyttan fjölda ættu að vera 23.800 grænir bílar árið 2020. Núna eru 700 hreinir rafbílar á landinu. Þeim hefur að vísu fjölgað um 100% á hverju ári og voru ekki nema 15 í árslok 2010. Í lok þessa árs ættu þeir að verða orðnir 1.400 talsins. Norðmenn settu sér það markmið að rafbílar yrðu 200.000 árið 2020. Þeir hafa fylgt sínum markmiðum eftir. Núna eru 60.000 rafbílar þar og talan tvöfaldast á hverju ári. Þeir virðast ná markmiðum sínum í lok árs 2017 með sama framhaldi,“ segir Gísli.

Hið opinbera vill ekki sjá rafbíla

Stóri munurinn á stjórnsýslunni í Noregi og Íslandi sé sú að markmiðunum er fylgt eftir í Noregi en ekki hér. Meðan undanþága frá virðisaukaskatti gildir einungis til eins árs í senn vilji enginn koma nálægt rafbílavæðingu landsins. Annað dæmi úr stjórnsýslunni sem Gísli nefnir eru útboð opinberra stofnana á bílum þar sem nánast ávallt er tilgreint sérstaklega að um bensín- eða dísilknúna bíla skuli vera að ræða.

„Ég sendi alltaf inn fyrirspurn um hvort að rafbíll komi til greina. Stundum berst mér svar, yfirleitt ekki. Það er því útilokað að hægt sé að bjóða fram rafbíl í þessum útboðum og svo virðist sem forsvarsmenn opinberra stofnana viti ekki af því að íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að 10% af bílaflotanum skuli vera umhverfisvænn árið 2020.“