Stjórn Marel hefur ákveðið að veita 11 starfsmönnum kauprétt að allt að 4,1 milljónum hluta í félaginu á gengi dagsins í gær, en lokagengi dagsins nam 366,00 krónum á hlut. Kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma segir í fréttatilkynningu.

Kaupréttirnir verða veittir meðlimum framkvæmdastjórnar félagsins ásamt hópi valdra starfsmanna í lykilstöðum, en starfsmennirnir verða að halda hlutunum til starfsloka hjá félaginu. Meðal þeirra sem fá kauprétt er Árni Oddur Þórðarson forstjóri sem fær rétt á að kaupa 650 þúsund hluti en Linda Jónsdóttir fjármálastjóri og Árni Sigurðsson yfirmaður stefnumótunar og þróunar sem fá 425 þúsund hluti hvor. Aðrir fá 250 þúsund hluti.

Er áætlaður heildarkostnaður samninganna fyrir félagið 2,1 milljón evra, eða sem samsvarar 263,7 milljónum íslenskra króna. Ávinnslutíminn er 3 ár frá úthlutun og geta starfsmennirnir nýtt þá frá því að fyrsta árshlutauppgjör ársins 2021 hefur verið birt þangað til 1. ársfjórðungs ársins 2022.

Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Marel hf. hefur veitt starfsmönnum sínum nemur nú alls 14,0 milljónum hluta, sem nemur um 1,9% hlutafjár í félaginu, og er þá meðtalin þessi nýja úthlutun kauprétta.

Nánari upplýsingar um kauprétti sem veittir eru framkvæmdastjórn Marel:

Kaupréttir starfsmanna Marel samþykktir 12. febrúar 2018
Kaupréttir starfsmanna Marel samþykktir 12. febrúar 2018