"Mér hefur sýnst að sjávarútvegurinn væri að halda út þetta háa gengi enn sem komið er. Ég hef haft gengivísitöluna 110 sem ákveðinn útgangspunkt í þessu sambandi. Ef vísitalan fer ekki niður fyrir það mark hef ég á tilfinningunni að sjávarútvegurinn almennt muni komast í gegnum þetta tímabil," sagði Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands.

"Ástæðan er sú að mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa getað haldið áfram að hagræða og stjórnendur eru ennþá harðari af sér en áður að breyta eða draga úr starfsemi sem tap er á og leggja þess meiri áherslu á að finna hvernig hægt sé að hagnast á einstökum rekstrarþáttum. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum hefur líka verið hagstætt og í heild liggja þau um 7% hærra reiknað í erlendum gjaldmiðlum heldur en í fyrra."

Vilhjálmur sagði að þokkalegur gangur í uppsjávarveiðum framan af árinu skipti máli upp á uppgjör og afkomu hlutaðeigandi fyrirtækja eftir fyrri hluta ársins.

"Ýmis fyrirtæki í sjávarútvegi eiga þó í erfiðleikum, sem eiga sér ekki eingöngu rætur í stöðu efnahagslífsins og genginu heldur í öðrum þáttum líka svo sem lélegri rækuveiði og þröngri stöðu á einstökum mörkuðum. Hin mikla hækkun olíuverðs hjálpar svo ekki til. Uppsjávarveiðarnar hafa gengið misjafnlega frá því í sumar. Kolmunnaveiðin hefur dottið niður og loðnan hefur ekki látið sjá sig. Veiðar á norsk íslensku síldinni hafa hins vegar haldið áfram og virðast hanga í því að vera í lagi. Mestu munar þó um í þeim veiðum að síldin fer mestan part í frystingu um borð í vinnsluskipunum sem skilar væntanlega þokkalegri afkomu.

Þegar allt er tínt til verður að gera ráð fyrir því að slæmar fréttir berist frá einhverjum sjávarútvegsfyrirtækjum, sérstaklega minni fyrirtækjum sem af einhverjum ástæðum hefur ekki tekist að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og koma sér í einhverja þá starfsemi sem skilar hagnaði þrátt fyrir erfiðar efnahagslegar aðstæður. Þröng staða sjávarútvegsfyrirtækja þýðir væntanlega að flest þeirra reyna að halda sjó og hafa hægt um sig í fjárfestingum og gera væntanlega miklar arðsemiskröfur til þeirra fjárfestinga sem þau þó leggja út í. Minni fjárfestingargeta sjávarútvegsfyrirtækja er ekki heppileg þegar til lengri tíma er litið. Þessi fyrirtæki eru lykilfyrirtæki til þess að leggja fé í rannsóknir og
þróunarstarfsemi til framfara í sjávarútvegi og tengdum greinum, s.s. fiskeldi. Á næstu árum er nauðsynlegt að umtalsverð uppbygging verði í fiskeldi og annarri afleiddri starfsemi af hefðbundnum sjávarútvegi til þess að styðja við byggðaþróun út um land og skapa ný störf í sjávarbyggðum í stað þeirra sem hverfa með hagræðingu í hefðbundinni starfsemi."