Alls voru 116 umsækjendur um stöðu markaðsstjóra stafræns Íslands. Fjórtán þeirra hafa dregið umsókn sína til baka. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytsins við fyrirspurn Mannlífs.

Meðal umsækjenda um stöðuna eru Sunna Karen Sigurþórsdóttir fyrrverandi ritstjóri vefútgáfu Fréttablaðsins.

Védís Hervör Árnadóttir,  samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs Ísland, er einnig í hópi umsækjenda og sömu sögu er að segja af Kolfinnu Von Arnardóttur, leiðsögumanni og eiganda Reykjavík Fashion Festival.

Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, sem meðal annars hefur gert garðinn frægan á KrakkaRÚV, er einnig í hópi vonbiðla sem og Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Þá er Atli Þór Albertsson, markaðsstjóri Þjóðleikhússins, einnig meðal umsækjenda.

Samkvæmt auglýsingu um starfið felur það í sér að leiða markaðskynningu Stafræns Íslands með áherslu á vefinn Ísland.is. Andri Heiðar Kristinsson, áður framkvæmdastjóri Travelade, var ráðinn framkvæmdastjóri verkefnisins fyrr á þessu ári.

Listann í heild sinni má nálgast á vef Mannlífs .

Leiðrétting: Í fyrrri útgáfu fréttarinnar var ranglega greint frá því að Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Hjallastefnunnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu hafi sótt um stöðuna. Hrafnhildur er ekki meðal umsækjenda.