Félagið S4S ehf., sem á og rekur fjórtán verslanir, þrjár netverslanir og heildsölu hér á landi, hagnaðist um tæplega 117 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 en árið 2018 nam hagnaður félagsins rétt rúmlega 110 milljónum króna. Meðal verslana sem eru hluti af S4S samstæðunni má nefna Ellingsen, Air, Ecco, Kaupfélagið, Skechers og Steinar Waage.

Velta félagsins nam tæplega 3,6 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við tæplega 3,4 milljarða veltu árið áður. Velta félagsins jókst þar af leiðandi um ríflega 5%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 283 milljónum króna í fyrra en til samanburðar nam EBITDA félagsins 273 milljónum króna árið áður.

Afkoman í takt við áætlanir

Pétur Þór Halldórsson, stofnandi, forstjóri og einn eigenda S4S, segir að afkoma rekstrarfélagsins á síðasta ári hafi að mestu leyti verið í takt við áætlanir.

„Árið 2019 var mjög gott ár og heilt yfir ríkir nokkur ánægja með rekstrarniðurstöðuna. Flestar áætlanir stóðust en það var helst launakostnaðurinn sem fór fram úr áætlunum," segir Pétur. Félagið greiddi um 815 milljónir króna í laun og launatengd gjöld árið 2019 en árið áður nam launakostnaðurinn 790 milljónum króna. Að jafnaði störfuðu 85 manns hjá S4S i fyrra en árið áður voru starfsmennirnir að jafnaði 83.

„Verslanir fyrirtækisins eru staðsettar í verslunarmiðstöðvum og við höfum verið að benda á að til að mæta auknum launakostnaði sé æskilegt að stytta opnunartíma miðstöðvanna," bætir Pétur við.

Yfirstandandi ár lofi góðu

Að sögn Péturs hefur reksturinn á yfirstandandi ári gengið mjög vel. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi þurft að loka mörgum af verslunum sínum tímabundið meðan COVID-19 faraldurinn var að taka sér bólfestu hér á landi, sé í kortunum að afkoma ársins 2020 verði jafnvel enn betri en hún var í fyrra.

„Sem betur fer þurftum við ekki að halda verslunum lokuðum til lengri tíma og að sama skapi kom það sér mjög vel hvað við höfum komið okkur upp öflugri netverslun. Við erum einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að selja skó, fatnað, ýmsar útivistarvörur og rafknúin farartæki. Eftirspurnin eftir þessum vörum hefur ekki farið minnkandi vegna COVID-19 heldur hefur hún þvert á móti aukist.

Við höfum því, líkt og vanalega, kappkostað við að bjóða upp á gott úrval af vörum á góðu verði. Þessi heimsfaraldur hefur þó haft ýmsar áskoranir í för með sér en við höfum náð að halda góðu aðgengi að okkar erlendu birgjum. Það hefur reynst mörgum sem stunda verslunarrekstur erfitt að nálgast vörur vegna ástandsins í heiminum en við höfum blessunarlega náð að púsla þessu öllu saman."

631 milljón króna eigið fé

Eignir S4S námu rúmlega 1,5 milljörðum króna í lok síðasta árs samanborið við 1,7 milljarða árið áður. Skuldir námu 884 milljónum en þær námu tæplega 1,1 milljarði króna í lok árs 2018. Þá var eigið fé S4S 631 milljón í lok síðasta árs en 614 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall S4S var því 42%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .