Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. hefur borist 12 óskuldbindandi tilboð í  hlutafé Sjóvár Almennra trygginga hf. Í flestum tilvikum er boðið í allt hlutafé félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en tilboðin voru opnuð þriðjudaginn 2. febrúar kl. 14.00 í viðurvist Sigurðar Páls Haukssonar, löggilts endurskoðenda, sem var tilnefndur sem óháður matsaðili.

Fram kemur að þeim sex tilboðsgjöfum sem áttu hæstu óskuldbindandi tilboðin, sem jafnframt teljast hafa fullnægjandi fjárhagslega burði, verður gefinn kostur á áframhaldandi þátttöku í söluferlinu og veittur aðgangur að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins.

Loks kemur fram að af þeim sex sem boðin verður áframhaldandi þátttaka í ferlinu eru þrír erlendir aðilar. Tilboðum með fyrirvara um áreiðanleikakönnun ber að skila í síðasta lagi 22. febrúar 2010.