Að meðaltali voru 12.363 manns án atvinnu í nóvember og fjölgaði þeim um 301 manns milli mánaða. Atvinnuleysi í nóvember mældist 7,7% að því er fram kemur í samantekt Greiningar Íslandsbanka.

Í sama mánuði í fyrra voru að meðaltali 13.357 manns án atvinnu, eða um 8,0% af vinnuafli. „Hefur því bótaþegum fækkað á milli ára og atvinnuleysið minnkað mælt sem hlutfall bótaþega af vinnuafli. Þess má þó geta að hert eftirlit og skertur bótaréttur fólks í námi getur skýrt lækkaða atvinnuleysisprósentu á milli ára að hluta til," segir í fréttum Greiningar.

Atvinnuleysi í nóvember er í neðri mörkum þess sem reiknað var með samkvæmt fréttinni. „Þannig hafði Vinnumálastofnun fyrir um mánuði síðan talið líklegt að atvinnuleysið yrði á bilinu 7,6%-8,0%. Frá októbermánuði hefur skráð atvinnuleysi því aukist um 0,2 prósentustig sem kemur í raun ekki á óvart þar sem atvinnuleysi eykst yfirleitt á milli þessara mánaða vegna hefðbundinna árstíðarsveifla. Þetta kemur fram í tölum um skráð atvinnuleysi sem Vinnumálastofnun birti í gær."