Heildarvelta smásöluverslunar á Íslandi nam tæpum 359 milljörðum króna árið 2013, samanborið við 354 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu smásöluverslunar var því 1,4% að raunvirði milli ára. Veltan var mest í dagvöruverslun, eða 204,3 milljarðar króna án virðisaukaskatts. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Árbók verslunarinnar 2014 , en þar er að finna upplýsingar um hagræna og lýðfræðilega þróun sem snýr að verslun 2013 og árin á undan.

Þar kemur fram að greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í verslunum hafi numið 16 milljörðum króna árið 2013, sem er 16% aukning frá árinu áður. Ferðamenn keyptu mest í fataverslunum og dagvöruverslunum.

Mest fjölgun var í stofnun þeirra verslana sem skráðar eru netverslanir, eða um 11% frá árinu á undan.

Fjöldi gjaldþrota verslana árið 2013 var 172 og fækkaði um 16% frá árinu áður. 294 nýjar verslanir voru stofnaðar á árinu.

Alls störfuðu 23.700 manns við verslun árið 2013, sem er 13,6% af heildarvinnuafli landsins. Fjöldi starfsmanna í verslun jókst um 5,3% milli ára. Laun í verslun voru 395 þúsund krónur árið 2013 og hækkuðu um 3,7% frá fyrra ári, samanborið við 3,2% launahækkun annarra stétta. Laun verslunarfólks eru ekki lengur lægst allra stétta, því laun fræðslustarfsmanna eru nú lægri, eða 384 þúsund.