Þó vöruviðskiptajöfnuður Íslands hefði verið neikvæður um 11,8 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var þjónustujöfnuðurinn jákvæður um 55,7 milljarða að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Þar með var vöru- og þjónustujöfnuðurinn jákvæður um 43,9 milljarða á fjórða ársfjórðungi og þá um 140,1 milljarð króna fyrir árið í heild, sem er aukning um tvo þriðju hluta, eða 66,8% frá því að hann var 84 milljarðar árið 2018.

Á fjórða ársfjórðungi 2019 var áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 333 milljarðar en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 289,1 milljarður. Verðmæti þjónustuútflutnings var 10 milljörðum króna hærra á fjórða ársfjórðungi 2019 en á sama tíma árið áður, eða 6,2% á gengi hvors árs.

Hugverkaréttur vóg upp minni ferðaþjónustu

Útflutningstekjur af ferðaþjónustu lækka á milli ára um 6,4 milljarða króna eða 9,4% á gengi hvors árs fyrir sig. Tekjur af samgöngum og flutningum lækka einnig á sama tíma um 16,8% eða 8,4 milljarða króna á gengi hvors árs. Vegur þar þyngst samdráttur í tekjum af farþegaflutningum með flugi.

Aukningu í útflutningstekjum á milli ára má rekja til hækkunar á innheimtu gjalda fyrir notkun hugverka um 18,2 milljarða eða 176,2% á gengi hvors árs fyrir sig. Á sama tíma er einnig hækkun á útflutningi annarar viðskiptaþjónustu eða 4,5 milljarðar á milli ára eða 32,8% á gengi hvors árs.

Árið 2019 var verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta áætlað 1.344 milljarðar samanborið við 1.324,4 milljarða árið áður. Verðmæti innflutnings fyrir sama tímabil var áætlað 1.203,9 milljarðar borið saman við 1240,4 milljarða árið 2018.

Fyrir árið í heild var verðmæti þjónustuútflutnings 691,3 milljarðar og lækkaði um 19,0 milljarða á milli ára eða 2,7% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðaþjónustu voru stærsti liðurinn eða 330,7 milljarðar en lækkar um 6,6 milljarða á milli ára eða 2%. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum var næst stærsti liðurinn eða 197,2 milljarðar. Lækkun á milli ára nam 41,2 milljörðum króna eða 17,3% á milli ára. Önnur viðskiptaþjónusta var 50,9 milljarðar og hækkar á milli ára um 14,1 milljarð króna eða 38,2%.