Í kringum 14.000 miðar hafa verið seldir á kvikmyndina Star Wars: Force Awakens, nýjasta innslaginu í Star Wars-myndaröðinni sem frumsýnd verður í dag. Þetta staðfestir Árni Samúelsson, eigandi Sambíó- anna, í samtali við Viðskiptablaðið en Sambíóin eru dreifingaraðili kvikmyndarinnar hér á landi. Um er að ræða sölumet í forsölu á kvikmynd hér á landi.

„Það er búið að vera ótrúlegt hvernig þetta hefur allt saman gengið, bæði hér og alls staðar í heiminum,“ segir Árni. „Við urðum strax varir við það þegar við byrjuðum að selja á þessa mynd. Miðnætursýningin [í gærkvöldi innsk. blm.] seldist upp á einhverjum tveimur klukkutímum í alla sali.“

Slær met

Manstu eftir öðru eins? „Aldrei,“ segir Árni. „Ég er búinn að vera í þessu í 36 ár og ég man ekki eftir neinu slíku. Þetta er alveg svakaleg, en kemur mér kannski ekki beint á óvart. Ég er búinn að sjá myndina og hún er alveg ótrúlega góð og vel heppnuð. Ég heyrði frá því að Steven Spielberg hefði séð myndina nýlega, horfði á hana tvisvar þrisvar sinnum og sagði svo að þessi mynd yrði stærsta mynd allra tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .