*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 25. júní 2019 13:03

143,4 milljóna sekt fyrir skattabrot

Fyrrverandi forstöðumaður trúfélagsins Zuism í liðinni viku dæmdur í átján mánaða fangelsi vegna skattalagabrota.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Ólafur Helgi Þorgrímsson, fyrrverandi forstöðumaður trúfélagsins Zuism, var í Héraðsdómi Reykjaness í liðinni viku dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna skattalaga- og bókhaldsbrota. Þá var hann dæmdur til að greiða 143,4 milljónir króna í sekt og komi 360 daga fangelsi í stað hennar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Í ákæru var Ólafi gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum einkahlutafélags sem hann veitti forstöðu gjaldárin 2011 og 2012 og ekki staðið skil á framtali gjaldársins 2013. Með því vantaldi hann skattskyldar tekjur um 611 milljónir og möguleg rekstrargjöld um tæpar 360 milljónir. Vanframtaldir tekjuskattstofn nam 251,6 milljónum og slapp félagið með þessu við að greiða tæplega 48 milljónir í tekjuskatt. Þá vanrækti hann að færa tekjur í bókhald og að láta allar tekjur koma fram í ársreikningum.

Ólafur kom fyrir dóm og játaði brot sitt og bar því við að nú horfði til betri vegar í öðrum rekstri hans. Með hliðsjón af því og öðrum atvikum málsins þótti unnt að skilorðsbinda refsinguna. Hins vegar var ekki fallist á að takmarka sektina við lögbundið sektarlágmark og þóttu áðurnefndar 143,4 milljónir hæfileg sekt.

Ólafur var áður skráður forstöðumaður trúfélagsins Zuism en með honum í stjórn voru Kickstarter-bræðurnir Einar og Ágúst Arnar Ágústssynir. Trúfélagið hafði verið óvirkt um skeið og ætluðu nýir aðilar að taka það yfir og endurgreiða félagsmönnum sóknargjöld. Deilur risu upp um yfirráð yfir félaginu og lauk þeim með því að Ágúst Arnar er nú forstöðumaður þess.

Þá var sagt frá því í Stundinni árið 2015 að Ólafur Helgi hefði verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara vegna mögulegs peningaþvættis í gegnum félag hans.