Hagnaður KB banka eftir skatta nam 15.760 milljónum króna á síðasta ári, jókst um 109,6% frá fyrra ári. Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 4.055 m.kr., jókst um 66,1% frá sama tímabili 2003. Hagnaður á hlut nam 31,7 krónum samanborið við 18,5 krónur árið 2003. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 22,6%, en var 23,0% á árinu 2003. Hreinar rekstrartekjur á árinu 2004 námu 48.569 m.kr., jukust um 52,8% frá árinu 2003.

Rekstrarkostnaður nam 24.402 m.kr., jókst um 32,0% milli ára og kostnaðarhlutfall lækkar úr 58,2% í 50,2%. Heildareignir námu 1.534 milljörðum króna í árslok 2004, jukust um 174,6% á árinu.

Gefnir voru út 110.000.000 hlutir og seldir á genginu 480 kr. á hlut til fagfjárfesta í október. Söluvirði hlutanna nam 52,8 ma.kr. Tilgangur sölunnar var að styrkja eiginfjárgrunn bankans.

Moody's hækkaði lánshæfismat bankans í nóvember, langtímaeinkunn er nú A1, einkunn vegna víkjandi lána A2, skammtímaeinkun var staðfest sem og fjárhagslegur styrkleiki bankans.

Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund að hluthöfum verði greiddar 3.304 milljónir króna í arð vegna ársins 2004 eða 5,00 krónur á hlut, sem svarar til 21% af hagnaði.