Alls fengust 1,6 milljónir króna upp í lýstar veðkröfur upp á tæplega 65,4 milljónir króna í gjaldþroti JÖR ehf. Félagið var stofnað til að halda utan um rekstur verslunar á Laugaveginum og til að halda utan um fatalínu. Bú JÖR var tekið til gjaldþrotaskipta þann 11. janúar síðastliðinn og var skiptum á búinu lokið 9. maí 2017 að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu.

Þar segir að skiptastjóri búsins hafnaði lýstri veðkröfu að fjárhæð 47,1 milljón króna. Einnig kemur fram að lýstar forgangskröfur námu 13,9 milljónum króna og að ekkert hafi fengist greitt upp í þær og að lýstar almennar kröfur námu 24,5 milljónum og ekkert hafi fengist greitt upp í þær.

Félagið sem var stofnað árið 2012 af Guðmundi Jörundssyni og Gunnari Erni Petersen skilaði síðast inn ársreikningi árið 2015 og var þá eigið fé þess neikvætt um 53 milljónir króna.