Krónuinnstæður á svonefndum vostro-reikningum erlendra banka nema um 164 milljörðum króna. Þetta kemur fram í áætlun Seðlabanka Íslands um losun gjaldeyrishafta sem gerð var opinber í gær. Um þetta atriði segir orðrétt í skýrslunni: "Ef allar þessar innstæður rynnu út í einu vetfangi hefði það slæmar afleiðingar fyrir lausafjárstöðu bankanna, sérstaklega ef innstæður innlendra aðila og aðrar skammtímaeignir fylgdu í kjölfarið."

Tekið er fram að nokkur hluti svonefndra endafjárfesta sem eiga "eignir sem eru andlag innstæðna erlendra banka" kunna að vera innlendir aðilar. Gögn sem sýna fram á umfang þessa eru hins vegar ekki til staðar. Af þeim sökum er greiningin byggð á fáanlegum gögnum um krónueignir erlendra aðila.