Alls sóttu 17 um laust embætti skrifstofustjóra Hæstaréttar en umsóknarfrestur rann út mánudaginn 15. mars. Forseti Hæstaréttar í embættið til fimm ára og verður skipun veitt frá 1. ágúst næstkomandi, en frá og með þeim degi mun Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, láta af störfum fyrir aldurs sakir. Þorsteinn hefur gegnt embættinu frá árinu 2004.

Viðskiptablaðið sagði frá því í morgun að 2 3 hefðu sóst eftir embætti skrifstofustjóra Landsréttar , en níu þeirra sækjast einnig eftir embætti skrifstofustjóra Hæstaréttar.

Skrifstofustjóri stýrir daglegum rekstri í umboði forseta Hæstaréttar og ber ábyrgð á að stefnumarkandi ákvörðunum sé hrint í framkvæmd. Viðkomandi kemur til með að vinna að innleiðingu á rafrænni málsmeðferð auk annarra breytinga er lúta að tæknimálum og stafrænni þróun sem fram undan eru.

Af lögmönnum sem sækja um embættið má nefna Elvar Örn Unnsteinsson hjá Lögmálum, Margréti Gunnlaugsdóttur á Lögfræðistofu Reykjavíkur og Pál Eiríksson hjá Borgarlögmönnum.

Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, sækist einnig eftir embættinu og það gera einnig Erna Sigríður Sigurðardóttir, settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Hilda Valdemarsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, og Karl Óttar Pétursson, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðarbyggðar.

Nöfn allra umsækjanda má sjá hér að neðan, en feitletruð eru nöfn þeirra sem einnig sækjast eftir embætti skrifstofustjóra Landsréttar.

 • Agnes Guðjónsdóttir , yfirlögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu
 • Birgir Hrafn Búason , yfirlögfræðingur hjá EFTA dómstólunum
 • Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu
 • Dagrún Hálfdánardóttir , lögmaður og framkvæmdastjóri félags forstöðumanna ríkisstofnana
 • Elvar Örn Unnsteinsson , lögmaður
 • Erna Sigríður Sigurðardóttir, settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
 • Eva Margrét Ævarsdóttir , lögmaður
 • Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður héraðsdómara
 • Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
 • Hilda Valdemarsdóttir , aðstoðarmaður hæstaréttardómara
 • Hildigunnur Guðmundsdóttir , í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala og vinnur jafnframt á lögmannsstofu
 • Karl Óttar Pétursson , fyrrverandi bæjar- og hafnarstjóri
 • Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur
 • Margrét Gunnlaugsdóttir , lögmaður
 • Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar
 • Páll Eiríksson, lögmaður
 • Skúli Þór Gunnsteinsson, lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.