174 milljóna króna hagnaður var af rekstri Íslenskra verðbréfa á árinu 2012. Eins og fjallað hefur verið um að undanförnu er allt útlit fyrir að MP banki yfirtaki félagið eftir að meirihluti hluthafa samþykkti tilboð MP banka. ÍV greiddu á árinu 2012 út 162,8 milljónir í arð. Eiginfjárhlutfall félagsins var í árslok 30,2% en má ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Í áritun endurskoðenda með ársreikningum er gerð ábending um skýringu í ársreikningnum þar sem fjallað er um stefnu slitastjórnar Kaupþings á hendur félaginu sem og stefnu slitastjórnar Landsbankans vegna uppgjörs afleiðusamninga. Slitastjórn Kaupþings fer fram á riftun greiðslu upp á 147 milljónir en slitastjórn Landsbankans hefur stefnt ÍV til að greiða 267 milljónir.