Hagnaður fyrri árshelmings hjá Reitum fasteignafélagi nam 1.926 milljónum króna en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 322 milljónum króna. Frá þessu greinir félagið í fréttatilkynningu.

Leigutekjur námu 5.805 milljónum króna og jukust um 4,1% frá sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður árshlutans fyrir matsbreytingu (NOI) nam 3.868 milljónum króna og jókst um 3,7% frá fyrra ári. Matshækkun fjárfestingareigna var 1.799 milljónir króna, samanborið við 461 milljón króna matslækkun á sama tímabili í fyrra.  Hagnaður á hlut var 2,79 krónur á meðan hagnaður á hlut á sama tímabili árið 2018 nam 0,46 krónum.

Virði fjárfestingareigna Reita var 147.699 milljónir króna í lok júní en á lokadegi ársins 2018 nam virðið 138.524 milljónum króna. Eigið fé var 47.722 milljónir króna þann 30.6.2019 og eiginfjárhlutfall var 30,7%. Vaxtaberandi skuldir námu 89.172 milljónum króna um mitt árið.

„Rekstur Reita gekk vel á fyrri helmingi ársins 2019 og var í meginatriðum í samræmi við væntingar stjórnenda. Í tilkynningu félagsins til markaðarins í febrúar sl., í tengslum við ársuppgjörið 2018, var sleginn varnagli við þróun leiguverða og bent á að fasteignafélag með atvinnuhúsnæði í öllum greinum atvinnulífsins væri á hverjum tíma spegilmynd viðhorfa og væntinga rekstraraðila. Að mati stjórnenda Reita er þörf á því nú að taka tillit til breyttra horfa í leigutekjum á seinni hluta ársins og að auka þurfi varúð vegna viðskiptakrafna með tilheyrandi áhrifum á rekstrarhagnað félagsins fyrir árið í heild.

Á undanförnum mánuðum hafa Reitir unnið að endurnýjun fjölda fasteigna sinna, bæði fyrir nýja viðskiptavini og þá sem fylgt hafa félaginu til lengri tíma. Nokkur stór rými eru nú tímabundið athafnasvæði iðnaðarmanna. Stóru framkvæmdaverkefni lauk í júlí síðastliðnum þegar Reitir afhentu Landspítala vandlega endurnýjað um fimm þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði í Skaftahlíð. Innan skamms hefjast framkvæmdir á Eiríksgötu 5, þar sem núverandi höfuðstöðvum spítalans verður breytt í göngudeild. Umtalsverðar framkvæmdir eiga sér stað á þriðju hæð í norðurenda Kringlunnar þar sem verið er að endurnýja tæplega þrjú þúsund fermetra atvinnurými auk þess sem nú er verið að gera upp hin sögufrægu hús Pósthússtræti 3 og 5 í miðborg Reykjavíkur.

Reitir horfa björtum augum til framtíðar. Eignasafn félagsins er stórt og vandað, en á sama tíma metið með varfærnum hætti í bókum þess. Áfram er unnið að þróun Kringlusvæðisins í heild sinni og þá er sérstaklega unnið að stefnumótun fyrir verslunarmiðstöðina Kringluna, en hraðar breytingar í verslun og verslunarháttum kalla á nýja nálgun í þeim efnum. Deiliskipulagsvinna er hafin fyrir Orkuhússreitinn við Suðurlandsbraut sem byggir á þeirri skipulagstillögu sem hlutskörpust var í samkeppni um uppbyggingu á þeim reit. Þá hafa Reitir og Mosfellsbær undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu í Blikastaðalandi í Mosfellsbæ," er haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra Reita, í tilkynningunni.