Tíu starfsmenn Háskóla Íslands hafa hlotið styrki úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa er tengjast rannsóknum. Styrkirnir nema samtals 8,6 milljónum króna. Auk þess var veitt tíu milljóna króna framlag úr sjóðnum til nýs örgreinis Jarðvísindastofnunar.  Styrkirnir voru veittir við athöfn á Háskólatorgi þann 24. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á sviðum jarð-  og  lífvísinda.

Styrkþegar, sem allir hafa hafið störf við Háskóla Íslands á síðustu misserum, eru:

Erna Magnúsdóttir, sérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, sem hlýtur styrk til rannsóknaverkefnis sem miðar að því að auka skilning  á hlutverki utanerfða- og umritunarþátta í mergæxlum.

Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, hlýtur styrk til rannsóknaverkefnis þar sem skoðað er hvernig sjálfsáti er stjórnað í frumum sortuæxla og kannað hvort hindrun sjálfsáts gæti nýst sem meðferðarmöguleiki.

Ólafur Andri Stefánsson, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, fær styrk til verkefnis þar sem ætlunin er að skilgreina þátt sviperfða í því að marka mismunandi undirgerðir brjósta- og eggjastokkakrabbameina.

Snædís Huld Björnsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri hjá Matís, hlýtur styrk til rannsóknaverkefnisins „Jarðörverufræði íslenskra hverasvæða“ sem miðar að því að rannsaka áhrif lífrænna og ólífrænna þátta á mótun örverusamfélaga á ellefu íslenskum hverasvæðum.

Alexander Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur styrk úr Eggertssjóði til kaupa á fjarflugu/dróna sem notuð verður til mælinga með hárri upplausn af kelfingu í jökuljaðri Breiðamerkurjökuls.

Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að setja upp sjálfvirka veðurstöð til jöklarannsókna á norðurhluta Mýrdalsjökuls, nánar tiltekið á Sléttujökli.

Guðmundur H. Guðfinnsson,  fræðimaður  við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Enikõ Bali, lektor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hljóta styrk til að kaupa tæki til að rafsjóða sýnahylki fyrir bergfræðitilraunir.

Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlýtur styrk til rannsókna á heilbrigði viðkvæmra fuglategunda sem treysta á Ísland sem mikilvægan þátt í lífsferli sínum.

Sigríður Rut Franzdóttir, aðjunkt við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlýtur styrk til verkefnisins „Hlutverk prótínanna Pontin og Reptin í taugakerfi ávaxtaflugunnar, staðsetning þeirra og tengsl í frumum“.

Um Eggertssjóð

Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.

Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. varðandi saumavélar. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau.

Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið komið upp Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands.