Hlutdeild innlána í fjármögnun íslenska bankakerfisins hafar farið minnkandi undanfarið samkvæmt upplýsingum sem finna má í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Í lok júní 2005 voru einungis 20% af heildareignum viðskiptabanka og stærstu sparisjóða innlán, miðað við samstæðuuppgjör, samanborið við 30% í árslok 2000. Sambærileg hlutföll fyrir stærstu sparisjóðina sérstaklega eru á bilinu 45-50%.

Fjármögnunin í formi aukinna lántaka hefur fyrst og fremst verið á erlendum lánsfjármörkuðum. Í árslok 2000 námu brúttó erlendar skuldir viðskiptabankanna samkvæmt móðurfélagsuppgjörum 400 milljörðum króna og nettóskuldir, þ.e. að frádregnum kröfum á erlenda aðila, 340 milljörðum króna. Sambærilegar tölur miðað við lok júní 2005 eru 1.760 milljarðar króna brúttóskuldir og 750 milljarðar nettóskuldir.

Brúttóskuldirnar hafa þannig ríflega fjórfaldast og nettóskuldirnar rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili. Enda þótt meðallánstími hafi lengst og meiri
dreifing sé nú á uppruna lánanna eftir löndum og lánsfjármörkuðum
en áður er hér um að ræða verulega endurfjármögnunaráhættu.
Þessi áhætta telst vera einn af stærstu áhættuþáttunum í starfsemi
bankanna sem kallar á vandaða áhættustýringu.

Framangreindur vöxtur í efnahag innlánsstofnana hefur fyrst og
fremst verið fjármagnaður með lántökum og aukningu á eigin fé segir í ársskýrslu FME.