Frá árinu 2008 til 2009 glötuðust 19.600 starfsígildi á Íslandi sem er 10,6% samdráttur. 82% samdráttar á vinnumarkaði er hjá körlum en 16.600 starfsígildi töpuðust meðal karla. Þar af voru 11.300 í aldurshópnum 25-54 ára.

Þetta kemur fram í grein Eiríks Hilmarssonar, framkvæmdarstjóra Vísindagarða HÍ, og Gylfa Dalmann Aðalsteinssonar, dósent við viðskiptafræðideild HÍ.

Starfsígildi er skilgreint sem heildarfjöldi fólks í vinnu margfaldað með meðalfjölda vinnustunda deilt með 40 stundum.

Á uppgangstímanum 2003 til 2008 fjölgaði störfum hérlendis um 4.300 að jafnaði á árinu. Mest stækkaði markaðurinn frá 2005 til 2006 þegar fólki í vinnu fjölgaði um 9.000. „Að jafnaði er aukningin 2.300 störf á ári ef hún er í takt við mannfjöldabreytingu og 80% atvinnuþátttöku,“ segir í greininni.

Fram kemur að atvinnuþátttaka á Evrópska efnahagssvæðinu hafi hvergi verið eins há og hér á landi. Á árinu 2008 var hún 82,6% og atvinnuleysi 3,0%. Ári síðar höfðu tölur mikið breyst, atvinnuþátttaka var enn mikil eða 80,9% en atvinnulausum fjölgaði um 7.600 á milli ára og 3.900 færri voru á vinnumarkaði. „Fólki á aldrinum 16-74 ára fjölgaði aðeins um 700 sem bendir til að margir hafi fluttu af landi brott. Hlutfall þeirra sem voru í vinnu fór á einu ári úr 80,1% í 75%, en það er 6% samdráttur.“

80% glataðra starfa karlastörf

„Mest fækkaði störfum hjá körlum frá 2008 til 2009 þar sem yfir 80% glataðra starfa eru karlastörf, eða 8.800 af 10.800.

Hlutastörfum fjölgar á þessu tímabili en þeim fækkaði mikið sem voru í fullu starfi. Minna framboð vinnu kom m.a. fram í því að margir þurfa að sætta sig við hlutastarf. Að meðaltali fækkaði vinnustundum á viku frá 2008 til 2009 um tvær. Vinnutími minnkar mun meira hjá körlum en konum og helgast það af fjölgun hlutastarfa. Árið 2008 voru 10% karla í hlutastarfi en árið eftir var hlutfallið 13%. Hjá konum voru 35% í hlutastarfi en 37% ári síðar.“