Að sögn Björns Leifssonar, eiganda líkamsræktarstöðvakeðjunnar World Class, eru nú 21 þúsund Íslendingar með kort hjá World Class og rekstur stöðva félagsins gengur vel. Aðspurður segir hann engin áform uppi um að fækka stöðvum.

Útgefnum kortum hjá World Class fjölgaði um 6.500 á milli ára sem Björn segir að sé í takt við væntingar en þrjár nýjar stöðvar voru opnaðar á vegum World Class á síðasta ári. ,,Þetta er nánast upp á haus það sem er í nýju stöðvunum og því hefur ekkert fækkað í þeim stöðvum sem voru fyrir. Þetta hefur því heppnast gríðarlega vel,” sagði Björn. Hann sagði að aðsókn væri mikil núna og það væri fremur að hann þyrfti að opna nýjar stöðvar en loka þeim sem eru fyrir.

Að þessu leyti virðist samdrátturinn ekki hafa haft áhrif á aðsókn. Björn játaði hins vegar að vörusala og sala í matsölu stöðvanna hefði dregist verulega saman. ,,Það snarminnkaði á veitingastaðnum í upphafi. Fólk hefur haldið í við sig þar.”

World Class opnaði tvær nýjar stöðvar á síðasta ári og er nú með sjö stöðvar í rekstri.