*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 18. apríl 2018 07:01

23 milljarða kröfur í United Silicon

Arion banki er langstærsti kröfuhafi United Silicon með kröfur upp á um 9,5 milljarða króna.

Ingvar Haraldsson
Magnús Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon hefur verið kærður fyrir 600 milljóna fjárdrátt úr United Silicon.
Haraldur Guðjónsson

Kröfur í þrotabú United Silicon nema um 23 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum frá Geir Gestssyni, skiptastjóra þrotabús United Silicon. Arion banki er langstærsti kröfuhafinn með kröfur upp á um 9,5 milljarða króna. Arion banki tók í lok febrúar yfir allar helstu eignir fyrirtækisins sem hann metur á um 5,4 milljarða króna samkvæmt ársreikningi bankans. United Silicon var lýst gjaldþrota í janúar síðastliðnum eftir að hafa verið í greiðslustöðvun frá 14. ágúst. Arion banki afskrifaði fyrir áramót 4,8 milljarða króna fjárfestingu í United Silicon.

FME gagnrýnir fjárfestingu Frjálsa

Aðrir kröfuhafar United Silicon sitja eftir með sárt ennið. Búist er við að lítið sem ekkert fáist upp í almennar kröfur. Meðal kröfuhafa eru þrír lífeyrissjóðir sem reknir eru af Arion banka: Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA), og Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Arion banki var jafnframt ráðgjafi United Silicon við fjármögnun verkefnisins. 1,3 milljarða fjárfesting lífeyrissjóðanna sem reknir eru af Arion banka hefur verið afskrifuð af fullu. Þá afskrifaði Festa lífeyrissjóður 900 milljóna fjárfestingu sína í kísilverinu.

Fjármálaeftirlitið gagnrýndi fjárfestingaferli Frjálsa lífeyrissjóðsins í niðurstöðum athugunar sem birt var á vef FME í síðustu viku. Þar kom fram að ekki hafi verið tekið nægt tillit til hagsmunatengsla milli Arion banka og lífeyrissjóðsins þegar ákvörðun var tekin um að fjárfesta í United Silicon.

Gæti tekið tvö ár að koma verksmiðjunni í lag

Umhverfisstofnun mun ekki veita leyfi fyrir því að endurræsa verksmiðjuna fyrr en nauðsynlegum úrbótum á henni er lokið. Arion banki hefur áætlað að það taki 18-24 mánuði og milljarða króna að koma verksmiðjunni í rekstarhæft horf. Unnið er að sölu verksmiðjunnar til erlendra fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.