Íslenska karlalandsliðið í fótknattleik sigraði á móti Austurríki í gær á ógleymanlegan hátt. Sigurinn kom landsliðinu í 16-liða úrslit Evrópumeistarakeppninnar sem þýðir að það keppir á móti Englandi næsta mánudag. Íslendingar voru spenntir fyrir leiknum og margir vinnustaðir lokuðu fyrr í gær vegna leiksins.

Spennan var svo mikil að eftir leikinn fóru ótal Íslendingar á vefsíðuna Dohop.com sem er leitarþjónusta til þess að finna ódýr flug til útlanda. Dohop er íslenskt fyrirtæki stofnað af Frosta Sigurjónssyni þingmanni Framsóknar en Davíð Gunnarsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu jókst umferðarálag á vefsíðu Dohop 25-falt beint eftir leikinn.

Ljóst er að Íslendingar vilja ólmir komast til Nice til að sjá leik Íslands gegn Englandi. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hafa sumir jafnvel komið sér saman um að leigja flugvél sem flýgur leiðina fram og til baka og hefur gengið vel að fá fólk til að taka frá sæti. Þá hefur verð á flugferðum rokið upp úr öllu veldi eftir niðurstöðu gærdagsins.