Nefnd á vegum Bandaríkjaþings hefur nú til skoðunar lánveitingu til bandaríska bílaiðnaðarins sem hljóðar upp á 25 milljarða bandaríkjadali.

Reuters fréttaveitan hefur þetta eftir demókratanum Barney Frank, formanni fjármálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Staða bílaiðnaðarins í Bandaríkjunum verður seint sögð öfundsverð en iðnaðurinn hefur tapað miklum fjárhæðum undanfarið. Risarnir á markaðnum, General Motors, sem er stærsti bílaframleiðandi í heims, Ford og Chrysler hafa sárbeðið stjórnvöld um aðstoð vegna slæmrar aðstöðu sinnar en sala á bílum hefur gjörsamlega hrunið.

Barney Frank gerir ráð fyrir því að slíkt lán yrði fengið úr „björgunarpakka“ Bandaríkjastjórnar sem nefndur hefur verið TARP (Troubled Assets Relief Program). Áætlun sem hljóðar upp á 700 milljarða bandaríkjadala. Það er þó vandamál að skýra lagasetningu um deilingu þeirrar upphæðar er ábótavant svo ekki liggur fyrir hve miklu af upphæðinni er hægt að verja í bílaiðnaðinn.