Hagnaður 365 miðla ehf. fyrir árið 2011 nam 250 milljónum króna, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag, einum af fjölmiðlum 365. Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra félagsins, að rekstur hafi verið ásættanlegur í ljósi efnahagsumhverfis.

Samkvæmt frétt blaðsins var heildarvelta á síðasta ári um 9.048 milljónir. EBITDA-hagnaður var 803 milljónir. Afskriftir og fjármagnsliðir námu 639 milljónum. EBITDA-hagnaður árið 2010 nam rétt rúmlega milljarði.

Í fréttatilkynningu sem vísað er til segir að lán fyrirtækisins séu í niðurgreiðsluferli og skuldir muni lækka hratt á næstu árum. Lausafjárstaða og eiginfjárstaða séu traustar.

„Ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta afkomu félagsins," segir Ari. „Þar má nefna endursamninga um sjónvarpsefni, einföldun á rekstri og sameiningu reksturs félagsins á einn stað. Í tengslum við flutninga allrar starfsemi í Skaftahlíð 24 hefur félagið varið vel á annað hundrað milljónum króna til fjárfestinga í nýrri sjónvarpsútsendingu og háskerpuvæðingu útsendingar. Þá er lögð áhersla á að efla enn frekar innlenda dagskrárgerð."