*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 6. september 2021 17:40

264 þúsund flugu með Icelandair í ágúst

Sætanýting Icelandair í millilandaflugi jókst úr 70% í 72% á milli júlí og ágústmánaðar.

Ritstjórn
EPA

Alls flugu 264 þúsund farþegar með Icelandair í ágúst, samanborið við 80 þúsund farþega á sama tíma í fyrra. Farþegum Icelandair fjölgaði um 45 þúsund á milli júlí og ágústmánaðar. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir ágústmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Farþegar í millilandaflugi voru rúmlega 241.000 í ágúst, eða um 170 þúsund fleiri en í sama mánuði í fyrra. Farþegar í millilandaflugi hjá Icelandair voru 195 þúsund í júlí 2021. Sætanýting í millilandaflugi var 72% í síðasta mánuði og hækkaði úr rúmum 70% í júlí 2021 „þrátt fyrir áhrif útbreiðslu Delta afbrigðisins á Íslandi og á lykilmörkuðum félagsins erlendis sem höfðu áhrif á farþegafjölda í ágústmánuði“.

Farþegar til Íslands voru 145.000, samanborið við tæplega 53.000 í ágúst 2020 og farþegar frá Íslandi voru 24.000 en voru um 13.000 í ágúst 2020. Tengifarþegar voru 72.000 samanborið við um 1.300 í fyrra og um 51.000 í júlí í ár. Stundvísi í millilandaflugi var 87%.

Í tilkynningu Icelandair um vetraráætlun kom fram að framboð félagsins í ágúst hafi verið um 50% af framboði sama mánaðar árið 2019. Flugfélagið stefnir þó að því að þetta hlutfall verði um 65% frá október til desember og nái 75% á fyrstu þremur mánuðum næsta árs.

Farþegum Icelandair í innanlandsflugi í ágúst voru 22.600 talsins, samanborið við 12.400 á sama tíma í fyrra, og fjölgaði því um rúmlega 80% á milli ára. Farþegum í innanlandsflugi hefur fjölgað um 55% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Fjöldi seldra blokktíma í leigustarfsemi jókst um 61% á milli ára í ágúst. Fraktflutningar jukust um 39% á milli ára í ágúst og hafa aukist um 21% fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Við erum mjög ánægð með árangur sumarsins en við höfum náð að byggja leiðakerfið hratt upp á undanförnum mánuðum þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Við jukum flugið frá um 30 brottförum á viku frá Keflavík í maí í um 200 brottfarir á viku í ágúst. Sem það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til landsins þá hefur þessi hraða uppbygging skipt sköpum fyrir íslenska ferðaþjónustu á undanförnum mánuðum en við fluttum yfir 150 þúsund ferðamenn til landsins í sumar. Þá hefur góður árangur náðst í fraktflutningum til og frá landinu að undanförnu en mesta aukningin er á Norður-Atlantshafinu þar sem við höldum áfram að styrkja stöðu okkar.

Við kynntum nýverið vetraráætlun okkar þar sem við sjáum fyrir okkur áframhaldandi sókn með 160 brottförum á viku til 25 áfangastaða. Þannig verður áætlunin um 65-75% af áætlun ársins 2019. Uppbyggingin heldur því áfram með það að markmiði að ná stöðugleika í fluginu á ný og við munum áfram nýta þann sveigjanleika sem félagið býr yfir til að aðlaga flugáætlun okkar að aðstæðum hverju sinni og grípa þau tækifæri sem gefast á hverjum tíma hér eftir sem hingað til.“