Fjöldi farþega í flugi Flugfélags Íslands, sem er í eigu Icelandair [ ICEAIR ], til og frá Vestmannaeyjum jókst um 27% fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 miðað við sama tímabil á fyrra ári, segir í fréttatilkynnnigu.

Aukning farþega á þessari flugleið er nokkuð almenn en þó er áberandi hvað mikið af hópum hafa flogið með félaginu á þessum fyrstu mánuðum ársins, aðallega innlendir en einnig er um marktæka breytingu að ræða á fjölda erlendra ferðamanna og eru bókanir fyrir sumarið mjög góðar.

Frá og með 01. maí hafa verið flognar 3 ferðir á dag alla daga vikunnar nema miðvikudaga og laugardaga og verða því 19 ferðir á viku í boði í allt sumar.

Sú öfluga uppbygging atvinnulífs og ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum sem verið hefur á undanförnum misserum gefur væntingar um að þessi aukning sem nú hefur orðið muni vera varanleg og mun Flugfélag Íslands halda áfram af fullum krafti því kynningar- og markaðsstarfi sem hófst í lok ársins 2006 þegar félagið hóf aftur áætlunarflug til Vestmannaeyja, segir í fréttatilkynningu.