Þrjú þúsund fjárfestar óskuðu eftir því að kaupa hlutabréf í HB Granda í útboði með bréfin fyrir samtals 23 milljarða króna. Hlutafjárútboðinu lauk í gær. Útboðið nemur 27% af útgefnum hlutum í HB Granda og er söluandvirði þess 13,6 milljarðar króna. Endanlegt útboðsgengi er 27,7 krónur á hlut í báðum tilboðsbókum útboðsins. Miðað við þetta gengi nemur virði allra hlutabréfa í félaginu um 50 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu um niðurstöðu útboðsins, að fjárfestingarbankasvið Arion banka hafði umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll. Seljendur hlutanna voru Arion banki og félögin Vogun Fiskveiðahlutafélagið Venus.

Þeir sem buðu lágt fá ekkert

Í tilkynningunni segir að hlutirnir verða seldir til um 2.500 fjárfesta, en ekkert kemur í hlut þeirra sem buðu undir 27,7 krónur á hlut. Um 5% af útgefnum hlutum HB Granda verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók A fyrir kaupum að andvirði 0,1-25 milljónum króna og hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 0,1-13,3 milljónum króna. Um 22% af útgefnum hlutum félagsins verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók B fyrir kaupum að andvirði 15 milljónum króna eða meira og verða áskriftir á og yfir útboðsgengi óskertar. Stærsta úthlutun í útboðinu nemur 5% hlut til eins fjárfestis.

Gert er ráð fyrir að eindagi fjárfesta verði 23. apríl næstkomandi og viðskipti með hluti í HB Granda geti hafist á Aðalmarkaði föstudaginn 25. apríl næstkomandi en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.