Af um 100 þúsund fjölskyldum í landinu skulda um 27 þúsund ekkert í íbúðarhúsnæði sínu, að því er fram kemur í áætlun sem birt er í Þjóðarbúskapnum, riti fjármálaráðuneytisins sem kom út í liðinni viku.

Eiginfjárhlutfall í íbúðarhúsnæði var nokkuð stöðugt á bilinu 60%-70% á árunum 1992-2007.

Þróun fasteignaverðs og fasteignaskulda á árunum 2008 og 2009 leiðir hins vegar til þess að eiginfjárhlutfall er talið lækka í um 44% í lok þessa árs.

Eiginfjárhlutfall skuldugra úr 54% í 27% á tveimur árum

Af þeim 73 þúsundum sem skulda eitthvað í húsnæði sínu var eiginfjárhlutfallið 54% í árslok 2007 en er áætlað um 40% í lok síðasta árs og „lauslega er áætlað að það verði komið í 27% í árslok 2009,“ segir í Þjóðarbúskapnum.

Í árslok 2007 voru um 7.500 fjölskyldur með neikvætt eigið fé í húsnæði sínu, þ.e. skulduðu meira en sem nam verðmæti húsnæðisins. Í lok þessa árs er talið að þessi hópur hafi nær fjórfaldast og sé orðinn um 28.500 fjölskyldur.