Rekstrartekjur samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. (ÍAV) námu 4.990 milljónum króna á fyrrihluta ársins 2005. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 536 milljónir króna. Afskriftir tímabilsins námu 141 milljónum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 395 milljónum króna á tímabilinu. Hagnaður félagsins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 370 milljónum króna, en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 25 milljónir króna. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam hagnaður félagsins á fyrrihluta árs 299 milljónum króna.

Heildareignir Íslenskra aðalverktaka hf. og dótturfélaga námu 9.669 milljónum króna í lok júní 2005. Heildarskuldir samstæðunnar voru 6.246 milljónir króna í lok júní 2005. Bókfært eigið fé þann 30. júní 2005 var 3.423 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall í lok júní 2005 var því 35%.

Veltufé samstæðu Íslenskra aðalverktaka hf. frá rekstri á fyrri hluta árs 2005 var 542 milljónir króna. Handbært fé í lok júní 2005 var 573 milljónir króna. Veltufjárhlutfall var 2,9 í lok júní 2005.

Vel hefur gengið að afla félaginu nýrra verkefna það sem af er ári 2005 auk þess sem áfram var haldið með verkefni frá fyrra ári. Talsverð aukning var á íbúðabyggingum félagsins og gekk sala íbúða vel á tímabilinu. Félaginu gekk einnig vel að afla verka á tilboðsmarkaði og efldist verkefnastaða félagins talsvert frá fyrrihluta árs.

Hjá Íslenskum aðalverktökum hf. og dótturfélögum þess störfuðu að meðaltali 435 starfsmenn á fyrri hluta árs auk um 500 starfsmanna undirverktaka.

Stjórnendur ÍAV sjá veruleg og áhugaverð tækifæri á næstu árum til áframhaldandi sóknar og aukinna umsvifa í starfsemi félagsins og fjölþættingar á rekstri. Félagið hefur yfir að ráða fjölda lóða undir íbúðir og atvinnuhúsnæði og skapar það ásamt öðru félaginu áhugaverð verkefni í nánustu framtíð.