Kynntar hafa verið í bæjarráði Hveragerðis hugmyndir að fjölda nýrra lóða sem stefnt er á að koma í umferð í sumar og haust. Alls er hér því um að ræða 3-400 lóðir sem komnar geta verið í umferð innan nokkurra mánaða.

Í bæjarráði voru kynntar hugmyndir landeiganda í Hraunbrún, Þverbrekkum og Hrauntungu vestan núverandi byggðar sem ganga út á allt að 300 lóðir undir sérbýli á því svæði. Hveragerðisbær á hluta af því landi sem um ræðir og samþykkti bæjarráð að ganga til samstarfs við landeiganda og Ingimund Sveinsson arkitekt um að deiliskipuleggja svæðið.

Í skipulags- og byggingarnefnd voru kynntar tillögur skipulagsráðgjafa bæjarins að nýju deiliskiplagi sunnan og austan við núverandi byggð í Heiðarbrún sem ráðgjafanum var falið að útfæra nánar. Um er að ræða í kringum 80 einbýlis- og raðhúsalóðir sem allar verða í eigu Hveragerðisbæjar og úthlutað af bænum. Alls er hér því um að ræða 3-400 lóðir sem komnar geta verið í umferð innan nokkurra mánaða. Þessu til viðbótar eru uppi hugmyndir ýmissa verktaka um uppbyggingu íbúðarhúsa á gömlum garðyrkjulóðum í bænum. Þess má geta að heildafjöldi íbúða í Hveragerði í dag er nálægt 700.

Gert er ráð fyrir að lóðirnar fari í umferð strax í kjölfar staðfestingar Umhverfisráðherra á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar nú í vor.